Færsla #8

7 ATRIÐI SEM GOTT ER AÐ HAFA Í UPPLÝSINGAMÖPPUM FYRIR GESTI

Við vitum öll mikilvægi þess að nostra við smáatriðin þegar það kemur að því að gera upplifun gesta sem besta en skortir oft hugmyndir um hvernig hægt sé að gera betur og meira. 

Upplýsingamöppur inn á herbergjum eða íbúðum er ein leið til þess að koma skilaboðum til gestanna þinna á faglegan og skilvirkan hátt til þess að gera dvöl hans auðveldari og ánægjulegri. 

Af hverju er gott að hafa greinagóðar og fallegar möppur:

– Býður gestinn þinn velkominn um leið og þeir mæta, og gefur þeim ákveðna öryggistilfinningu 

– Hjálpar gestinum að þekkja gististaðinn og hvernig hann getur haft sem best not af honum. 

– Gefur þér færi á að kynna þeim alla þá þjónustu og vörur sem þú býður uppá, ásamt gagnlegum upplýsingum líkt og hvernig þeir tengja við Wifi, kveikja á sjónvörpum, setja í gang uppþvottavél og þar fram eftir götunum. 

– Upplýsingamappan gefur þér svo færi á að gefa persónuleg meðmæli á náttúruperlum, afþreygingu, opnunartímum o.s.frv. 

– Minnkar vinnu við að svara einföldum spurningum gesta þinna.

Renndu í gegnum hugmyndir af því sem að gott er að hafa í upplýsingamöppum og skaraðu fram úr með bættri þjónustu!

1. Persónuleg kveðja

Fyrst of fremst áttu að nýta möppuna til þess að bjóða gestinn þinn velkominn. Fyrstu kynnin skipta sköpum og því mikilvægt að senda þeim vinalega kveðju sem sýnir að þér sé annt um að veita gestinum bestu mögulegu upplifun. Tala nú ekki um ef að gististaðurinn þinn er með sjálfsinnritun og þú nærð ekki að heilsa gestinum í eigin persónu.

2. Komur og brottfarir

Ef þú hyggst senda rafrænt afrit af bókinni þinni í gegnum tölvupóst fyrir komu, er góð hugmynd að hafa greinagóðar upplýsingar um komu og brottfarir á fyrstu blaðsíðunum. Þá er tekið  fram; fullt heimilisfang, akstursleiðbeiningar frá flugvelli eða Reykjavík, reglur um komu og brottför og taka þar fram hvort þær séu sveigjanlegar  eða strangar o.s.frv. 

3. Meðmæli á afþreyingu

Sumir gestir koma vel undirbúnir með stífa dagskrá á meðan aðrir vilja fá persónuleg meðmæli frá heimamönnum. Því er gott að taka frá sérstakt pláss í upplýsingamöppunni með þeim afþreygingum og náttúruperlum sem svæðið þitt hefur upp á að bjóða. Hér er sniðugt að vera með gönguleiðir með kortum, hjólaleiðir, fjöll í nágrenninu o.s.frv. Einnig er vert að koma inn á verslunarmöguleika fyrir matvöruverslanir, föt, gjafavöru og þvíumlíkt. 

4. Matur og drykkur

Skrifaðu stutta kynningu á mat og drykkjar möguleikum í nágrenninu. Er eitthvað sérstakt við þitt svæði, eru kleinurnar einstaklega góðar í bakaríinu á horninu eða er hægt að smakka hákarl á hverfisbarnum? Fylgdu þessum texta svo eftir með uppáhalds veitingastöðunum þínum, börum, bestu hádegismöguleikum og taktu fram ef það eru einhverjir sérstakir réttir á þessum stöðum sem þér finnst sniðugir eða hefur eftirlæti á. Svo má ekki gleyma að setja inn símanúmer, vefsíður og heimilisfang til að auðvelda fólki að bóka borð eða finna á TripAdvisor. 

5. Gagnlegar upplýsingar um gististaðinn

Allir gististaðir eru mismunandi, og gestirnir frá mismunandi menningarheimum með ólíkum heimilistækjum, jafnt sem siðum og venjum og því mikilvægt að útskýra smáatriðin vel. Notaðu þennan kafla af möppunni til þess að lista húsreglur, með greinagóðum leiðbeiningum um hvað er ætlast til af gestinum þínum á meðan dvöl hans stendur. Til að mynda flokkun, endurvinnslu, reykingar, vatnið o.s.frv. Þetta er líka kaflinn þar sem þú listar niður leiðbeiningar af WiFi, sjónvarpi, grillinu, pottinum, þvottavélinni og allt sem þú telur mikilvægt til að gera upplifun þeirra sem besta.. 

6. Gagnlegar upplýsingar um nágrennið

Það er mjög hjálplegt að lista upp handhægar upplýsingar um nágrennið.. Þetta þýðir allt sem hægt er að finna í nágrenninu,  allt frá hraðbönkum til apótekja, vegagerðin, bílaleigur, neyðarnúmer, bensínstöðvar, búðir sem eru opnar seint og allt sem ykkur dettur í hug að gæti verið hjálplegt.

7. QR kóðar og umsagnir

Á síðustu blaðsíðu þá mælum við eindregið með að þakka vel fyrir komuna og óska gestum góðrar ferðar. Því er gott að fylgja eftir með beiðni um umsögn á TripAdvisor eða Google + með QR kóðum sem einfaldar gestinum að fara beint inn á umsagnarsíðu.

Ferðavefir hanna upplýsingamöppur fyrir gististaði, hafið samband til að fá frekari upplýsingar, upplysingar@ferdavefir.is eða í síma 554-5414.